Thursday, February 10, 2005

Y-kynslóðin

Ég var að lesa mjög áhugaverða grein sem fjallar um hina svokölluðu Y-kynslóð en það á víst að vera kynslóðin mín. Þetta fannst mér mjög áhugaverð grein því þarna var verið að fjalla um hluti sem ég hef mjög mikið verið að pæla í á undanförnum árum. Einfaldlega það hvernig kynslóð mín kynslóð er, hvað einkenni hana og hvernig muni framtíð hennar verða. Á undan minni kynslóð var hin svokallað X-kynslóð. Y-kynslóðin fæddist á árunum 1982-1995 samkvæmt greininni en þá er hægt að segja að X-kynslóðin hafi fæðst á árunum 1968-1981. Annars eru mörkin þarna á milli mjög loðin. Ég hef mörg X-kynslóða einkenni eins og til dæmis er ég mjög hrifinn af ´80´s menningu, flestar uppáhaldsmyndirnar mínar eru frá þeim tíma og ég fíla vel tónlist frá þeim tíma. Það er samt aðallega því að systkini mín eru öll miklu eldri en ég og höfðu mikil áhrif á mig hvað þessa hluti varðar. En allaveganna. Ég veit hreinlega ekki hvað ég ætla mér að segja í þessarri færslu. Bara það að þessi grein staðfesti ýmislegt um mína kynslóð. Mín kynslóð er alin upp við internetið, mp3, dvd og fjöldan allan af sjónvarpsstöðum. Þetta er kynslóð sem horfir á stríð og hörmungar í beinni útsendingu. Þetta er líka mikil neyslukynslóð. Við erum alltaf að borða ruslfæði á bandarískum skyndibitastöðum, leigja dvd myndir og eigum öll gemsa og ipod.

En hvað verður svo um okkur ? Hvernig verður heimurinn eftir 20 ár þegar næsta kynslóð tekur við ? Er þetta allt að fara út í meira og meira rugl ? Verða settir litlir harðir diskar í heilann á krökkum og þráðlaust net og svo sett á þau gleraugu með skjá og áður en þau byrja að tala eru þau byrjuð að kaupa sér hor úr dóttur hennar Britney Spears á ebay ?

Fyrir ekki einu sinni 10 árum voru fáir með internetið og næstum enginn með gsm síma en samt var það ekkert vandamál en núna virðist fólk ekki geta lifað án þessara hluta nú til dags. Svo virðist sem að menn séu endalaust að búa til nýjar og nýjar gerviþarfir. Það koma reglulega nýjar uppfinningar í almenningsnotkun sem fólk gat vel lifað án áður fyrr en eftir nokkur ár getur það ekki lifað án þessarra hluta ? Þetta endar kannski með því að fólk verður framleitt á færibandi eins og í bókinni Brave New World. Í þeirri bók átti líka fólk að taka sérstaka pillu ef þeim leið illa og gagnrýnin hugsun var ekki til. Þegar ég las þessa bók fyrir 4 árum fannst mér eins og heimurinn væri á leiðinni að enda eins og heimurinn í þeirri bók og núna er ég enn vissari.

Samt ekki.

Í rauninni er þetta örugglega allt á yfirborðinu. Málið er það að við höfum fáránlega mikla möguleika, mun meiri en kynslóðirnar á undan okkur. Lífið í dag er tiltölulega auðvelt, þannig séð. Fólk nú til dags er mun menntaðra en áður og svo eru bíómyndir og internetið að hjálpa mikið við að mennta fólk(eða mennta suma og gera aðra að heilalausum uppvakningum). Fólk er orðið mjög meðvitað og mun meira líbó en áður. Vinsældir Gay pride er t.d gott dæmi um það. Jú, heiminum er enn stjórnað af fíflum en vonandi verður það ekki svo eftir ca. 20 ár. Eða hvað ? Samkvæmt e-i könnun eru ca. helmingur bandarískra menntaskólanema fylgjandi ritskoðun á meðan kannski svona þriðjungur kennara var fylgjandi henni. Svo virðist sem Bush sé að takast að ala upp heila kynslóð af hálfvitum.

Æji, ég veit ekki. Ég veit voða lítið hvað ég er að segja og eflaust er ég ekki að meika neinn sens. En það er spurning hvort hlutirnir hafi ekki bara alltaf verið eins og þeir eru í dag ? Bandaríkjaforsetar hafa verið að fara í tilgangslaus stríð í marga áratugi. Það er alveg eins hægt að líkja íraksstríðinu við Hiroshima eða Víetnamstríðið. Svo ekki sé minnst á Kóreustríðið og persaflóastríðið. Og ætli það hafi ekki álíka vitleysingar og Dabbi Odds og Dóri Ásgríms stjórnað Íslandi ? Kennaraverkföll eru búin að koma með reglulegu millibili undanfarna áratugi og þannig mæti lengi áfram telja.

Málið er þetta: Það er ansi margt sem bendir til að heimurinn sé að fara til fjandans en í rauninni er hann búinn að vera að gera það nokkuð lengi. Við erum bara að verða meðvitaðri um það þökk sé internetinu og sjónvarpinu. Kannski það fari að koma að því að fólk fari að gera e-ð í málunum. Núna veit fólk um allt ruglið og eflaust hlýtur einhver að þora að lagfæra málin. Það gæti kostað blóð, svita og tár en þannig er lífið.

Y-kynslóðin gæti verið kynslóðin sem reddaði málunum. Kynslóðin sem gerði heiminn að betri stað. Eða ekki. Það kemur í ljós.


Plötur:

Kasabian - Kasabian
The Knife - Deep Cuts(8.5/10)
The Magnetic Fields - 69 Love Songs
Animal Collective - Sung Tongs
Massive Attack - Mezzanine
Spoon - Girls Can Tell
Spoon - Kill The Moonlight