Wednesday, September 21, 2005

Klukk

Villi froskur gerðist svo góður að klukka þannig að ég verð að gjöra svo vel að hlýða honum. Það virðist mjög misjafnt hvernig fólk gerir þetta. Sumir skrifa bara mjög einfalda hluti eins og í hvaða skóla þeir eru, aldur, búsetu og fleira stöff. Hluti sem í raun allir vita og eru ekkert spennandi. En svo eru aðrir sem skrifa virkilega áhugaverða hluti um sig og eru virkilega að segja frá sjálfum sér og ég ætla að gera það. Hérna koma 5 staðreyndir um mig:


Númer 1: Ég heiti Atli Sigurjónsson. Ég verð bara að viðurkenna að ég hef ekki mikla hugmynd um hvað nafnið mitt þýðir. Ég veit að konungur Húna hét Atli og ég held að nafnið hafi eitthvað að gera með að vera mikilmenni, og ég vona það þar sem það er frekar töff, en ég er alls ekki viss. Ég hef einhvern veginn aldrei spáð mikið í nafninu mínu. Það hlýtur samt eflaust að hafa verið einhver pæling hjá foreldrum mínum bak við það að skýra mig þessu nafni. Allaveganna er ég alveg sáttur við nafnið mitt. Ekkert verra en hvað annað nafn.

Númer 2: Ég er forfallinn kvikmyndanjörður og hef verið síðan ég var ca. 10 ára. Sumir halda að ég hafi séð allar myndir og ég hef jafnvel verið kallaður Mr. IMDB. En trúið mér, það er til fólk þarna úti sem er miklu sorglegra en ég og hefur séð mun fleiri myndir og veit mun meira um þær. Ég veit ekki nákvæmlega hvernig þessi árátta byrjaði, ég hef alltaf haft gaman að góðum bíómyndum og horfði mikið á alls kyns myndir þegar ég var lítill en einhverntíma á 10. aldursári mínu fékk ég brennandi áhuga á bíómyndum og öllu sem við kom þeim og ákvað að ég vildi verða kvikmyndagerðarmaður. Mig langar ennþá að vera kvikmyndagerðarmaður og stefni á því að fullum krafti. Ég hef samt alls ekki verið nógu duglegur í að vinna í því. Ég gerði slatta af rugl stuttmyndum þegar ég var svona 12-13 ára en ákvað svo að myndirnar sem ég var að gera væru drasl og ákvað að taka mér smá hlé þangað til ég væri orðinn þroskaðri. Síðan gerði ég hérumbil ekkert fyrr en ég var svona 18 ára og 19 ára gamall keypti ég mína fyrstu kameru sem var nú samt ekkert sérlega merkileg. Síðan þá hef ég bara gert 4 myndir og 2 af þeim voru samdar á staðnum á einu kvöldi. Þetta hefur samt skánað smá saman og hef ég skrifað einhver handrit og er að fara að festa kaup á 170.000 króna kameru á næstunni og ætla að reyna að gera eitthvað af viti brátt. Síðan ætla ég í kvikmyndaskóla þegar ég er búinnn með bókmenntafræðina í háskólanum. Ástæðan fyrir því að ég fór ekki strax í kvikmyndaskóla er einfaldlega sú að ég tel mig ekki tilbúinn til að fara í þannig skóla, tel t.d ekki líklegt að ég komist inn en aðalástæðan er samt sú að mig langar að kunna eitthvað fleira en bara að gera bíómyndir og ég fann það út að bókmenntafræði hentaði mér best þar sem bæði sameinar hún margt sem ég hef áhuga(ss listir og menningu af öllu tagi) og einnig er hún mjög góður grunnur ef ég ætla mér að vera góður leikstjóri og handritshöfundur.

Númer 3: Kvikmyndir er samt ekki það eina sem ég hef áhuga á. Ég er líka mikill áhugamaður um tónlist. Þegar ég var ca. 12 ára keyptu foreldrar mínir áskrift að fjölvarpinu og inn í þeim pakka var sjónvarpsstöðin MTV. Ég byrjaði að horfa mjög mikið á hana og fékk fljótlega gríðarlegan áhuga á tónlist og fór að renna í gegnum diskasafn bróður míns. Smá saman jókst áhugi minn og þegar ég var svona 14-15 ára byrjaði ég að vilja að kunna á gítar. Ég nennti samt ekki að fara í tónlistarskóla, eitthvað sem ég sé mjög eftir núna, og ákvað að ég gæti alveg lært þetta sjálfur eins og margir aðrir. En það gekk mjög hægt og núna mörgum árum seinna er ég ennþá frekar slappur gítarleikari. Ég fékk gítar í jólagjöf þegar ég var 17 ára en hann lá lengi óhreyfður. Ég get samt alveg spilað eitthvað á gítar en ekkert að ráði. Ég veit ekki af hverju ég hef verið svona latur, mig skortir eflaust bara aga og þolinmæði. Ég ákvað samt nýlega að prófa annað hljóðfæri og fór á stutt píanónámskeið þar sem ég lærði á hljóma og slíkt og núna var ég að byrja á öðru námskeiði. Vonandi gengur mér betur að læra á píanó en gítar en ég er samt ekki búinn að gefast upp á gítarnum og einn daginn langar mig að geta spilað vel á nokkur hljóðfæri! Annars er ég velta því fyrir mér að stofna hljómsveit á næstunni. Þar sem ég er enn ekki fær um að spila á neitt hljóðfæri held ég að ég verði bara söngvari! Ég er alls ekkert frábær söngvari en ég er heldur ekki alslæmur, auk þess eru margir söngvarar í vinsælum hljómsveitum sem eru langt frá því að vera góðir söngvarar þannig að takmarkaðir sönghæfileikar ætti ekki að skipta það miklu máli. Ég held að ég sé annars soldill draumóramaður, mig dreymir oft um að vera rokkstjarna og big-time leikstjóri en það er náttúrulega mjög óraunhæf markmið. Ég væri samt bara mjög sáttur við í vinna í öðrum hvorum bransanum á einhvern hátt en þó vonandi sem eitthvað meira en rótari eða best boy. Það er sagt að maður eigi að elta draumana sína og ég ætla svo sannarlega að gera það.

Númer 4: Best að segja frá einhverju sem ég skammast mín svolítið fyrir: Ég lærði ekki að hjóla fyrr en ég var 12 ára. Flestir krakkar læra það þegar þeir eru svona 5-6 ára en ég gerði það ekki fyrr en ég var 12 ára. Ég veit ekki nákvæmlega hvað var ástæðan, ætli ég hafi ekki verið e-ð hræddur við þetta. Ég gerði nokkrar misheppnaðar tilraunir en datt alltaf fljótlega og gafst þá strax upp. Mér var náttúrulega strítt út af þessu þannig að á endanum ákvað ég að bíta á jaxlinn og reyna bara aftur og ég endaði á því að læra þetta loksins og auðvitað reyndist þetta ekki vera neitt mál. Ég komst að því fyrir stuttu að einn vinur minn sem er ári eldri en ég lærði að hjóla í fyrrasumar þannig að ég skammast mín kannski ekki svo mikið fyrir þetta lengur. Þessi gaur á samt bróður sem er 9 árum eldri og sá maður kann ennþá ekki að hjóla!

Númer 5: Ég drekk ekki áfengi og hef aldrei gert. Eða réttara sagt: ég hef aldrei verið fullur. Ég hef smakkað hina ýmsu drykki en hreinlega aldrei haft áhuga á því að vera fullur. Ég tók þá ákvörðun að mig langaði ekki til að byrja að drekka þegar ég var í 9. bekk og flestir krakkarnir í árgangnum mínum voru byrjaðir að drekka. Mér fannst þau með eindæmum sorgleg og hafði engann áhuga á að vera eins og þau. Síðan þá hef ég komist að því að það eru ekki allir jafn sorglegir þegar þeir eru fullir og sumir eru bara helvíti fínir í glasi jafnvel en engu að síður finnst mér þetta ekki spennandi. Ég get samt alveg umgengist fullt fólk og finnst gaman að kíkja í partí öðru hvoru en mér finnst bærinn oftast leiðinlegur og er í raun mun meira fyrir fámennar samkomur þar sem fólk spilar eða horfir á vídjó eða eitthvað slíkt. Ég hef þannig séð ekkert á móti áfengi en í augnablikinu hef ég enga þörf fyrir það. Svo er það líka oft mjög dýrt og það er fínt að vera alltaf fær um að keyra. Ég viðurkenni það samt alveg að ég er forvitinn að vita hvernig ég yrði fullur.

En já þá hef ég lokið af mínu og núna þarf ég að klukka 5 aðila, þessir 5 eru:

Haraldur Ágústsson
Stefán Valmundsson
Heiðar Ingvi Eyjólfsson
Jakob Ómarsson(góð leið til að rífa hann upp úr blogglægð)
Halldór Marteinsson

Mér sýnist ekki neinn vera búinn að klukka þessa 5 en ef mér skjátlast þá endilega leiðréttið það.

Plötur:

The Beatles - Beatles For Sale, Rubber Soul, Magical Mystery Tour
The Darkness - Permission To Land(76)
Wilco - Yankee Hotel Foxtrot(88)
Nick Drake - Bryter Layter
Cake - Fashion Nugget
The Coral - The Coral
Kimono - Mineur Aggresif
The Fiery Furnaces - Gallowsbird Bark, Blueberry Boat, EP, Rehearsing My Choir
Sigur Rós - Takk
Gomez - In Our Gun
Franz Ferdinand - You Could Have It So Much Better...With Franz Ferdinand