Saturday, November 01, 2008

Will dance naked for money

Bloggedí blogg.

Þetta blogg hefur verið frekar snautt af lífi undanfarið .... undafarin .... seinustu misseri. En þessa dagana er ég atvinnulaus og ekki í skóla og ætti því að hafa nægan tíma til að blogga en samt blogga ég ekki, enda er margt sniðugra við tímann hægt að gera. En Eiður ákvað að blogga eftir langt hlé og það hvatti mig til að blogga líka.

En já, eins og ég sagði þá er ég atvinnulaus. Vinna hjá RIFF er búin og það virðist ekkert vera í boði fyrir mig. Það er svosem alveg nóg af vinnu, t.d. í fiski eða hjá McDonalds, en ég er bara allt of merkilegur fyrir þá vinnu. En ef ekkert annað býðst eftir langan tíma þá getur vel verið að ég fái mér bara einhverja vinnu. Vinnan göfgar manninn eins og þeir segja og mögulega hef ég kannski bara gott af því að vinna við að steikja borgara eða flaka fisk í nokkra mánuði. En á meðan ég er atvinnulaus hef ég alveg nóg að gera, margar bækur eftir ólesnar, kvikmyndir og sjónvarpsþættir eftir óáhorfðir, ég er að vinna í heimildamynd um Eistnaflug, að reyna að skrifa kvikmyndahandrit (kominn með 2 blaðsíður!) og svo er fullt annað hægt að gera! Ég nýt þess því ágætlega að vera atvinnulaus sem stendur, en hver veit hvað mér mun finnast um þetta eftir mánuð. Svo mun ég þurfa meiri pening á endanum. En sem stendur er ég ekki svo illa staddur fjárhagslega séð.

Annars líður mér svolítið eins og ég sé ennþá unglingur þessa dagana. Ábyrgðartilfinning er engin og sólarhringurinn þveröfugur. Svona svipað og líf mitt var í menntaskólaverkfallinu forðum. Tveggja mánaða tímabil þar sem ég fór venjulega að sofa um kl. 7, vaknaði um kl. 17 og gerði lítið annað en að hanga í tölvunni og horfa á bíómyndir. Reyndar var ég í ökunámi og vann smá en mestallur tíminn fór í hangs.

Ég veit ekkert hvert ég er að fara með þessarri færslu, mig langaði bara aðeins að tjá mig. Mig langar að skrifa einhverja langa og magnaða færslu með miklum heimspekilegum pælingum en ég hreinlega nenni því ekki, ég hef betri hluti við tíma minn og orku að gera.

En ef ykkur leiðist þá mæli ég með Kenny Vs. Spenny, sprenghlægilegum raunveruleikaþætti (eða "raunveruleikaþætti") um tvo vitleysinga sem fara í keppni í hverjum þætti. Meðal þess sem þeir keppa í er allt frá því hver er besti kokkurinn yfir í hver getur setið á kú lengst yfir í hver getur haldið kúk í bleyju lengst. Hver þáttur endar síðan á því að sá sem tapar þarf að þola mikla niðurlægingu, eins og að borða hor eða þvo glugga nakinn. Tjekkið á þessu (Klikkið á See all í Playlists, þar eru linkar á allar seríurnar) .

Þetta er líka skemmtilegt: