Film festival
Þá er kvikmyndahátíðinni lokið. Sökum anna náði ég ekki að sjá nærri því eins margar myndir og ég vildi en þó tókst mér að sjá 7 myndir í allt. Hefði samt viljað sjá tvöfalt fleiri en það. En allaveganna þá ætla ég núna að birta mjög stuttar umsagnir um þær myndir sem ég sá.
King´s Game: Ég hafði sama og ekkert heyrt um þessa mynd áður en ég sá hana en skildist að hún væri góð svo ég ákvað að tjekka á henni. Myndin reyndast vera allt í lagi en lítið meira en það. Svosem ekkert að henni og alveg ágætlega gerð en líka ekkert merkileg og ósköp hefðbundin. Myndin fjallar um fréttamann sem er að reyna að fletta ofan af spillingu í stjórnmálum en bætir engu við í þann geira mynda. Myndin er í stuttu máli sagt viðunandi en óframúrskarandi. 53 af 100.
And Life Goes On: Mjög athyglisverð innsýn inn í lífið í Íran. Það gerist hérumbil ekki neitt í myndinni og söguþráðurinn mjög lítill en samt leiddist mér ekki. Myndin nær að draga mann að sér með einfaldleika sínum og fegurð og er tiltölulega laus við rembing og tilgerð. Hún er líka nokkuð fyndin og fær mann til að hugsa. Þrátt fyrir allt þá heldur lífið alltaf áfram... 69 af 100.
George Michael: A Different Story: Ágætlega athyglisverð og nokkuð skemmtileg heimildarmynd um poppgoðið en einhvern veginn ekkert frábær. Kannski af því hún virkar meira eins og sjónvarpsþáttur heldur en alvöru heimildarmynd. Allaveganna á þessi mynd meira heima í sjónvarpi heldur en bíó. Svo fer örugglega þriðjungur af myndinni í að sýna tónlistarmyndbönd með kappanum, eins og það hafi ekki verið nógu mikið af efni í 90 mínútna mynd þannig að það er fyllt upp í með tónlist. Engu að síður skemmti ég mér ágætlega. 57 af 100
Nobody Knows: Mjög falleg en um leið sorgleg mynd um 4 japönsk börn sem þurfa að sjá um sig sjálf þegar móðir þeirra yfirgefur þau. Myndin er löng og hæg en hefði eflaust ekki virkað annars. Maður finnur virkilega til með krökkunum. Samt fannst mér hún kannski örlítið of langdregin á köflum. En í heildina fínasta mynd. 71 af 100.
Tarnation: Hiklaust besta myndin af þeim sem ég sá. Þessi mynd er eitthvað alveg nýtt og frekar ólík nokkru sem maður hefur séð áður. Henni má kannski lýsa í stuttu máli sem blöndu af hýrum söngleik og David Lynch mynd. Nema bara að allt sem við sjáum er raunverulegt. Leikstjórinn hefur safnað vídjómyndum og ljósmyndum úr eigin lífi og gert úr því mynd sem segir sögu hans og móður hans og ömmu og afa. Frekar truflað lið allt saman. 76 af 100.
Midnight Movies: From The Margin To The Mainstream: Saga upphafs miðnæturmynda er hér rakin á mjög skemmtilegan hátt. Ekkert stórvirki hér á ferðinni, myndin reynir að útskýra af hverju þessar myndir sem fjallað er um hafa haft svona mikil áhrif en ég er ekki viss um hvort hún hafi náð að svara því á nógu fullnægjandi hátt. Góð tilraun engu að síður og mjög fræðandi og skemmtileg mynd. 64 af 100
Eraserhead: Þetta var í annað skipti sem ég sá þessa frumraun David Lynch. Þegar ég sá hana fyrst skildi ég ekkert í henni en fannst hún töff engu að síður. Núna fannst mér ég skilja smá í henni. Túlkun mín á myndinni er þessi: Hér er ekki verið að fjalla um ameríska drauminn heldur amerísku martröðina. Þessi mynd er ekkert annað en ein stór martröð, eflaust unnin úr draumum og martröðum sem Lynch dreymdi. Myndin grípur mann alveg og það er ekki hægt annað en að dást að súrheitunum. Þegar hún kom út var hún gerólík nokkru sem hafði sést áður og það á ennþá við. Svo er hún líka helvíti fyndin. 75 af 100.
Því miður missti ég svo af myndum á borð við Howl´s Moving Castle, My Summer Of Love, Death Of Mr. Lazarescu og fleirum. En svona er lífið, ekki eintómur dans á rósum. Talandi um dans á rósum. Hver fann upp þennan málshátt og hvað þýðir hann eiginlega? Hvað er svona frábært við að dansa á rósum?
Lögin:
Hjálparsveitin - Hjálpum Þeim
Kansas - Dust In The Wind
Plötur:
Belle And Sebastian - Dear Catastrophe Waitress(93)
Art Brut - Bang Bang Rock And Roll
Whitesnake - Slip Of The Tongue
<< Home