Monday, October 24, 2005

Íslensku Loftbylgjurnar

Þá er hinni mikilfenglegu tónlistarhátíð Iceland Airwaves lokið en í þetta skipti var reynsla mín af henni svolítið upp og ofan. Ég skemmti mér konunglega í fyrra en núna var fjörið misjafnt. Skipulagið fyrir það fyrsta var ekki upp á marga fiska. Airwaves er einfaldlega orðið of stórt batterí til þess að staðir á borð við NASA og Hafnarhúsið sem rúma bara nokkur hundruð manns geti hýst hljómsveitirnar á meðan þær spila. Svo er það líka bara rugl að hafa öll stærstu númerin á sama staðnum og sama kvöldinu. Mörg hundruð manna raðir mynduðust reglulega og margir misstu af eða sáu bara hlut af hljómsveitum sem það vildi sjá. Ég lenti til dæmis í röð í 2 og hálfan tíma í gærkveldi fyrir utan NASA og missti þar af leiðandi af Bang Gang og Zoot Woman og það sem verra er þá sá ég einungis brot af Clap Your Hands Say Yeah og naut þess ekki almennilega þar sem ég var enn að jafna mig eftir raðareynsluna. CYHSY var ein af aðalástæðum þess að ég keypti mér Airwaves miða. En eins og ég hef áður sagt þá er lífið enginn dans á rósum og ég sá margt skemmtilegt á þessarri hátíð. Persónulega fannst mér Gus Gus, Ratatat og Architecture In Helsinki standa upp úr. Einnig skemmti ég mér vel yfir Hermigervli, Skátum og Reykjavík! og Cotton + Einn komu mér skemmtilega á óvart. Ekki voru allir sammála mér um gæði Cotton + Eins en mér fannst þeir töff. Annie hin norska aftur á móti olli mér miklum vonbrigðum. Mér fannst diskurinn hennar helvíti góður en hún er bara ekki nærri því eins góð á sviði og í stúdíói. Sviðsframkoma hennar var frekar lítilfjörleg, sándið lélegt og mér bara hálfleiddist. Daníel Ágúst frændi minn stóð sig hins vegar mjög vel. Ég og Daníel erum systkinabörn og er ég því búinn að þekkja hann alla mína ævi, fínn gaur, en þrátt fyrir skyldleikann hafði ég aldrei séð hann á tónleikum áður. Eina skiptið sem ég hafði séð hann á sviði áður var þegar hann lék í Stonefree fyrir 8-9 árum. Ég var ekki alveg viss við hverju ég átti að búast þar sem ég hafði ekki heyrt í disknum en tónlistin reyndist vera mjög flott og falleg. Svosem ekki rosalega frumleg, eins konar blanda af Björk, Sigur Rós og Tom Waits(taktarnir þá en ekki söngurinn), en samt helvíti flott. Svo var æðislega súrt vídjó í gangi á skjánum bak við hann þar sem mátti meðal annars sjá Margréti Vilhjálmsdóttur leikkonu baka pönnukökur sem hún síðan svaf á og mann baða sig í einhverjum undarlegum svörtum vökva.

Annars sá ég líka Junior Senior sem voru svona lala fyrir utan hið eiturhressa lag Move Your Feet, Jose Rodriguez sem var ágætur en soldið einhæfur, Pétur Ben sem var helvíti hress og tókst að halda upp ágætis stemningu þrátt fyrir að slíta 2 strengi, Rass sem voru fyndnir og svo sá ég smá brot af Funk Harmony Park, Mr. Silla, Bob Volume, Bryndís(i) og Skakkamanage en of lítið til að geta dæmt almennilega.

Í heildina er ég samt ágætlega sáttur með þessa hátíð, það er margt sem hefði mátt betur fara en yfir höfuð skemmti ég mér ágætlega. Ég er allaveganna reynslunni ríkari og mun mætta snemma á þá staði sem líklegt er að myndist röð á á næsta Airwaves. Vonandi verður þetta samt betur skipulagt næst.

Bless og takk fyrir mig

Lög:

Gus Gus - David
Cotton + Einn - Carcrash
Junior Senior - Move Your Feet

Plötur:

Ratatat - Ratatat(84)
Ske - Life, Death, Happiness and Stuff
Gus Gus - Attention(87)
Depeche Mode - Playing The Angel
Architecture In Helsinki - In Case We Die, Fingers Crossed
Clap Your Hands Say Yeah - Clap Your Hands Say Yeah(87)
Au Revoir Simone - Verses of Comfort, Assurance and Salvation
The Ponys - Laced With Romance
Stephen Malkmus and The Jigs - Pig Lib
Sonic Youth - Murray Street(88), Washing Machine, Daydream Nation(96)
My Morning Jacket - Z