Sahara og snjór
Áðan skellti ég mér í kvikmyndahús á kvikmyndina Sahara. Ég bjóst svo sem ekki við miklu en var samt að vonast eftir ágætis afþreyingu í anda Raiders Of The Lost Ark og The Mummy svo e-ð sé nefnt. Myndin var lík þeim að mörgu leyti en einnig mátti sjá James Bond einkenni og hún á líka margt sameiginlegt með National Treasure. Myndin reyndist vera skítsæmileg afþreying en alls ekkert meira en það. Hún var hröð, stundum fyndin og með mörgum skemmtilegum mómentum og ágætis leikhóp en í heildina var hún bara frekar hugmyndasnauð og venjuleg. Ekkert kom á óvart, fátt var eftirminnilegt og hún var bara alveg hrikalega ómerkileg. Mér finnst skrítið að eftir allar Bond myndirnar og Indiana Jones myndirnar skuli kvikmyndagerðarmenn ekki geta haft betra ímyndunarafl. Hasaratriðin í þessari mynd eru að mestu alveg ótrúlega venjuleg og það var bara ekkert í þessari mynd sem fékk mann til að segja "Djöfull var þetta cool!!!!". Ég var aldrei spenntur og þetta var allt saman e-ð svo andlaust og slappt. Myndinni tókst betur til hvað varðar húmor og voru nokkur fyndin atriði í henni en ekkert sem ég myndi kalla snilldarlegt og ég hló voða lítið upphátt, bara svona rétt brosti oftast. Ótrúlegt að 4 menn hafi skrifað handritið að þessarri mynd. Hvar grafa þeir upp þessa handritshöfunda ? Er einhver regla sem segir að handritshöfundar megi ekki hafa gáfnavísitölu yfir 80 né vera með stúdentspróf ? Svo er myndinni leikstýrt af manni að nafni Breck Eisner en hann er einmitt sonur Michael Eisner, yfirmanns Disney samsteypunnar, og er greinilega bara ríkur pabbastrákur sem komst inn í bransann út á nafnið. Jújú það er greinilegt að drengurinn hefur farið í kvikmyndaskóla og allt það. Hann kann eflaust allar reglurnar og veit allt um þetta enda er myndinni ekki beint illa leikstýrst. En hæfileikar er eitthvað sem maðurinn hefur frekar lítið af, að minnsta kosti ef dæma má af þessari mynd.
Fólk sem gagnrýnir svona myndir er oft böggað fyrir að "taka þær of alvarlega" en málið er bara ekki það. Ég var ekki að taka þessa mynd neitt alvarlega. Eina sem ég var að biðja um var eitthvað sem kom á óvart, eitthvað eftirminnilegt og virkilega sniðugt en það var bara frekar lítið af því í þessari mynd. Mér leiddist alls ekkert og það var margt skemmtilegt í myndinni en ég náði aldrei að gleyma mér algjörlega í myndinni og hún skilur bara ekki neitt eftir sig. Þegar mynd kostar 130 milljónir dollara að gera er líka ekkert að því að gera smá kröfur til hennar. William H. Macy og Delroy Lindo ná ekki einu sinni að gera mikið fyrir myndina enda eru þeir báðir með frekar illa skrifuð hlutverk og eru auk þess frekar lítið í myndinni. Þetta eru menn sem ég myndi borga fyrir að sjá lesa upp úr símaskránni en þeir ná samt ekki að gera mjög mikið fyrir þessa mynd. Ég gef henni 48 af 100.
Svo snjóaði í dag. Af hverju í andskotanum snjóar í maí?!?!?! Fucking gróðurhúsaáhrif....
<< Home