Hrói Skelda 2006
Enn einn Hrói afstaðinn. Þetta var þriðji Hróinn sem ég fer á í röð og ég veit ekki hvort ég nenni aftur á næsta ári. Það er alltaf gaman að fara á Hróa en mig langar líka að prófa eitthvað nýtt, ég er samt ekkert viss um að þetta sé í síðasta skipti sem ég fer. Tónlistarlega séð var þessi Hrói á milli ´04 og ´05. Betri en ´04 en ekki alveg eins góður og ´05. Í ár sá ég nokkra snilldartónleika, Roger Waters tónleikarnir t.d. eru með betri tónleikum sem ég hef farið á og ekkert sem ég hef séð á Hróa held ég að toppi þá. Green Day tónleikarnir í fyrra voru reyndar eflaust alveg jafn skemmtilegir en tónlistin hjá Roger Waters er samt mun betri. Green Day fengu mig til að brosa en Roger gaf mér gæsahúð. En ég sá fleiri góða tónleika í fyrra en í ár og skipulagið var betra í fyrra, það var mjög mikið af slæmum árekstrum síðasta daginn á meðan það var mjög fátt sem mig langaði virkilega til að sjá daginn áður. Annað sem var gott við Hróa í fyrra er að þar eignaðist ég fullt af nýjum vinum en núna hékk ég næstum bara með gömlum vinum (nokkrum þeirra kynntist ég á Hróa í fyrra). Ég kynntist samt nokkrum hressum Dönum, Svíum og Bretum sem ég mun samt eflaust aldrei sjá aftur. Nema kannski á Hróa.
Smá listi af því sem stóð upp úr:
Bestu tónleikarnir: Roger Waters
Næstbestir: Tool
Skemmtilegastir: Scissor Sisters
Mestu Vonbrigðin: Bob Dylan, hann er orðinn allt of gamall og virtist ekkert vera að nenna þessu. Svo spilaði hann næstum enga smelli, ég þekkti a.m.k. mjög fá lög og fannst flest lögin frekar leiðinleg. Ég er svosem enginn rosa Dylan aðdáandi og þekki í raun lítið meira en helstu smellina en ég var samt að vonast eftir einhverju meira. Hann spilaði ekki einu sinni á gítar! Ég held að ég fíli Bob best einn á kassagítar en ekki á hljómborð með heilu bandi.
Komu mest á óvart: Eiginlega ekkert, ekkert sem sprengdi huga minn a.m.k. (er þetta góð þýðing á blew my mind?) . Ég get kannski helst nefnt að bandið Killl voru betri en mig grunaði en annars var ekkert sem kom á óvart. Ég gerði reyndar allt of lítið af því að tjekka á böndum sem ég þekkti ekki.
Skemmtilegasta sviðsframkoma: Söngvararnir í Scissor Sisters.
Svalasta sviðsframkoma: Söngvarinn í Tool. Fáránlega töff náungi og algjörlega laus við stjörnustæla.
Asnalegasta sviðsframkoma: Eins skemmtilegir og mér finnst Franz Ferdinand þá voru stælarnir í söngvaranum Alex Kapranos agalegir. Hann tók endalausan tíma í að kynna hljómsveitina og henti út ér sér ömurlegum frösum á borð við "Are you alright?"(sem hann sagði a.m.k. þrisvar).
Leiðinlegast að hafa misst af: Silver Jews, költ indie-band sem mig langaði mikið að sjá en hafði lítið hlustað á. Ég missti af þeim því vinur minn vildi endilega mæta 1 og hálfum tíma fyrr í boxið (fremsta plássið) á Tool til að vera örugglega fremst. Einnig var leiðinlegt að missa af Phoenix og Jenny Lewis with The Watson Twins. Goldfrapp tónleikunum var síðan aflýst vegna veikinda, það var leiðinlegt að missa af henni en ég get þó huggað mig við það að enginn annar á Hróa sá þau heldur.
Svo voru langsætustu stelpurnar á Strokes.
Hróaskelda er samt miklu meira en bara tónleikar. Mannlífið er rosalegt og allar týpur af fólki er að finna þarna enda komið kringum 100.000 manns á hverja hátíð. Andrúmsloftið og stemningin er alveg nóg ástæða til að fara á þessa hátíð. Allir eru vinir og partíið stoppar ekki. Veðurguðirnir voru góðir við hátíðargesti í ár. Það rigndi hundum og köttum ´04 á meðan það var glampandi sól allan tímann í fyrra. Ég spáði að veðrið myndi vera einhvers staðar á milli í ár og virtist sú spá mín ætla að rætast til að byrja með. Það rigndi alla fyrstu nóttina. En eftir það rigndi varla neitt og hitinn nálgaðist 30 stig síðustu dagana. Ég hefði auðveldlega getað labbað nakinn um og ekki fundið fyrir neinum kulda en ég ákvað að gera hátíðargestum ekki þann óskunda að vafra um á Adamsklæðunum.
Allt í allt var þetta fínn Hrói og ég mun örugglega koma aftur á hann einhverntíma. Kannski á næsta ári, kannski eftir þrjú ár, það kemur bara í ljós.
Ég var líka í Köben í nokkra daga á undan og eftir hátíðinni. Heimsótti meðal annars Kristjaníu sem var mjög áhugavert og skemmtilegt. Þar voru ýmsir litríkir karakterar, þ.á.m. maður með stærsta höfuð sem ég hef séð, eitursvalur grænlenskur róni í leðurjakka, ca. sextug kona með dredda sem dílaði gras og fullt af hundum, flestir mjög stórir. Svo fór ég í bensínstöð eina þar sem klámmyndir voru seldar. Ég vissi ekki að það væri leyfilegt. Ætli Danmörk sé eina landið þar sem klám er selt á bensínstöðum? Ef til vill er það gert í Hollandi líka. Hvers vegna ætlist fólk sem tali germönsk mál sé mun frjálslyndara hvað varðar kynlíf en aðrar þjóðir? Íslendingar, Danir, Þjóðverjar og Hollendingar eru allar frekar líbó hvað kynlíf varðar. Svo sagði sænskur nágranni minn á Hróa að Svíar væru í þriðja sæti yfir lönd sem ríða mest í heiminum (miðað við höfðatölu vitaskuld) og ég hef heyrt að margir háskólakennarar í Svíðþjóð hafi leikið í klámmyndum á sínum yngri árum.
Í heildina séð var þetta fínasta útlandsferð og ég er mjög sáttur með hana en það er líka gott að vera kominn heim. Svo byrja ég að vinna aftur á mánudaginn og þá tekur alvara lífsins við. Húrra fyrir því.
Fullt af myndum voru teknar í ferð þessari og mun ég koma þeim á netið eins fljótt og unnt er. Eflaust eftir nokkrar vikur.
Ég held það sé engin þörf fyrir plötulista í þetta skipti auk þess sem ég hef ekki hlustað á margar heilar plötur undanfarnar tvær vikur.
Bless og takk og reykið krakk!