Thursday, February 15, 2007

Rudolph Valentino

Valentínusardagurinn 2007 var að renna skeið sitt á enda og á meðan margir fóru á deit þá eyddi ég deginum í lærdóm. Ég get ekki sagt að ég sé einhver aðdáandi þessa tiltekna dags en ég hef svo sem heldur ekkert rosalega mikið á móti honum. Margir hata þennan dag, aðallega út af biturleika held ég, en líka því að þetta er Bandarísk hefð. En ég bara spyr: Væri hann skárri ef hann væri ekki Bandarískur? Og er hann eitthvað verri en konudagurinn og bóndadagurinn? Er þetta ekki bara allt sama kjaftæðið? Samsæri hjá kortaframleiðendum og afsökun til að fá órómantíska karlmenn til að vera góðir við konurnar sínar? Þegar ég eignast kærustu, hvenær svo sem það verður, þá ætla ég aldrei að gera neitt á konudaginn eða Valentínusardaginn, nema þá bara upp á djókið, því ég tel mig ekki þurfa neina afsökun til að gera eitthvað gott fyrir kærustuna mína. Það væri líka miklu skemmtilegra ef það kæmi á óvart. En ég tel Valentínusardaginn allaveganna skárri en konudagurinn eða bóndadagurinn því að þeir dagar gera ráð fyrir að maður sé giftur en ekki valentínusardagurinn. Svo finnst mér allt of mikið af kynjaskiptingu í heiminum. Það er alltaf sér þetta fyrir stráka og hitt fyrir stelpur. Sumt af því er skiljanlegt, eins og t.d. sturtuklefar, en svo er annað eins og KFUM og KFUK sem á ekkert að þurfa að vera kynjaskipt. En það eru náttúrulega kristilegar stofnanir og kristskirkjan er einn helsti óvinur jafnréttis kynjanna. Ég held að ein ástæðan fyrir því af hverju kynin eru svona ólík er af því að það er allt of mikið gert af því að stía þeim í sundur allt frá því þau eru börn. Úr þessu þarf að bæta.

P.S: Ég fletti valentínusardeginum upp á wikipedia og þar komst ég af því að þótt að dagurinn sé Bandarísk hefð þá á hann uppruna sinn í grískri frjósemishátíð og kemur einnig fyrir t.d. í Kantarborgarasögum Chaucer (sem eru breskar fyrir þá sem vita það ekki og voru skrifaðar á 14. öld). Bretar fluttu síðan þessa hefð til Bandaríkjanna á 19. öld. Meira hér.

Ætli Rudolph Valentino hafi verið duglegur að halda upp á Valentínusardaginn?