Saturday, January 06, 2007

Á skíðum skemmti ég mér

Eftir rétt rúmlega hálfan sólarhring eða svo mun ég, ásamt fjölskyldu minni og fleira fólki, stíga um borð í flugvél sem mun ferja mig til Þýskalands og þaðan mun rúta ferja okkur til Ítalíu þar sem hugmyndin er að renna sér á skíðum í viku eða svo. Síðan sný ég aftur laugardaginn 13. janúar. Ljósmyndafærslan sem ég lofaði í síðustu færslu verður því að bíða þangað til einhverntíma fljótlega eftir það. Farið ykkur ekki að voða án mín.

Í millitíðinni getið þið skemmt ykkur við að skoða besta tónlistarmynband síðasta árs sem ég gleymdi að minnast á í síðustu færslu. Have a hot cup of hoffee!

Svo má ekki gleyma frétt ársins 2006.

Thursday, January 04, 2007

Compact discs and celluloid

Ég efa að fólk nenni að lesa einhverjar ritgerðir um álit mitt á því helsta í kvikmyndum og tónlist árið 2006 og því hef ég ákveðið að sameina umfjöllun mína í eina ekki allt of langa færslu.

Ég byrja á tónlistinni:

Tónlistarárið 2006 var ekkert svakalega gott að mínu mati, eflaust hafa verið verri ár í tónlist og ég á mjög líklega eftir að heyra einhverja gullmola sem voru gefnir út á árinu en til þessa hef ég ekki heyrt neina plötu sem kom út árið 2006 sem getur talist vera meistaraverk eða jafnvel komist nálægt því. Ég heyrði margar góðar plötur en ekkert sem sprengdi huga minn. Ekki nóg með það heldur voru ógleymanleg lög eða smáskífur af skornum skammti og ég tel að ekkert 2006 lag komist með tærnar þar sem lög á borð við Hey Ya, Take Your Mama Out, Float On, Last Night, Idiotheque, Nasty Boy og fleiri álíka ógleymanleg snilldarverk hafa hælana. Boy From School með Hot Chip fannst mér koma kannski næst þessum lögum en samt ekki alveg, Crazy með Gnarls Barkley er kannski sá smellur frá þessu ári sem mun lifa hvað lengst en hann er samt ekkert Hey Ya. Auðvitað kom fullt af góðum lögum út í ár en fá þeirra hafa þetta jeu ne se qua(hvernig sem það er aftur skrifað) sem áðurnefnd meistaraverk höfðu. Ég ætla rétt að vona að 2007 muni bera í skauti sér nokkur ógleymanleg meistaraverk sem munu lifa um ókomna tíð.

Bestu lög ársins 2006 að mínu mati:

Hot Chip - Boy From School og Over and Over
Thom Yorke - Harrowdown Hill
The Strokes - Ask Me Anything og Heart In A Cage
Tapes´n´tapes - Cowbell
Justin Timberlake - My Love
Cansei De Ser Sexy - Alala
The Eagles Of Death Metal - I Want You So Hard(Boy´s Bad News) (Eiginlega öll platan samt)
Belle and Sebastian - The Blues Are Still Blue
Gnarls Barkley - Crazy
Justice vs. Simian - We Are Your Friends
The Raconteurs - Level
Peter Bjorn & John - Young Folks(Flautið í þessu lagi held ég muni gleymast seint)
Yeah Yeah Yeah´s - Turn Into
Ratatat - Wildcat
The Rapture - Live in Sunshine
Scissor Sisters - I Don´t Feel Like Dancin´
Lily Allen - Smile

Og eflaust einhver fleiri. Núna plötur.

Þetta er eflaust slappasti topp 10 listinn í mörg ár, flestar þessar plötur væru bara "Honourable mention" ef þær hefðu komið út eitthvert annað ár.

Thom Yorke - Eraser
Belle and Sebastian - The Life Pursuit
Sonic Youth - Rather Ripped
Tapes´n´Tapes - The Loon
The Decemberists - The Crane Wife
The Strokes - First Impressions Of Earth
The Eagles Of Death Metal - Death By Sexy
The Knife - Silent Shout
The Raconteurs - Broken Boy Soldier
Hot Chip - The Warning

Aðrar góðar: The Rapture - Pieces Of The People We Love, Scissor Sisters - Ta-Dah, Cansei De Ser Sexy - CSS, Patrick Watson - Close To Paradise, TV On The Radio - Return To Cookie Mountain, Ratatat - Classics, Yeah Yeah Yeahs - Show Your Bones, Justin Timberlake - Futuresex/Lovesounds, Beck - The Information.

Plöturnar með The Rapture, Ratatat, Scissor Sisters og Beck er það sem má kalla "solid" plötur. Þau eru öll að gera eitthvað sem þau hafa gert áður og það vel en ekki á neinn ofurmarkverðan máta þannig að plöturnar ná ekki alveg að jafnast á við helstu meistaraverk þeirra. Það sama má í raun segja um flestar plöturnar sem ég nefni. Hot Chip og JT þykja mér þó hafa tekið skref fram á við frá frumraunum sínum(og JT platan verður betri með hverri hlustun og er líkleg til að hækka á listanum) og Tapes´n´tapes, The Raconteurs og Cansei De Ser Sexy áttu góðar frumraunir og verður gaman að heyra meira frá þeim (þó ég viti ekki hvort að Raconteurs hafi bara verið smá flipp og þeir muni ekki senda frá sér aðra plötu, ég vona ekki).

Svo eru ýmsar plötur sem ég hef ekki hlustað almennilega á en hljóma vel sem stendur og ber þar helst að nefna plöturnar með Fujiya & Miyagi, Peter Bjorn & John, The Thermals, The Guillemots, Scott Walker og Destroyer. Liars og Joanna Newsom plöturnar eru spurningmerki eftir eina hlustun og þarf ég að gefa þeim meiri tíma. Topplistinn minn mun örugglega líta allt öðruvísi út eftir eitt ár eða svo, ég veit að 2005 listinn minn hefur breyst mikið frá því fyrir ári síðan, þannig að þessum lista skal tekið með klípu af salti(vá hvað það virkar ekki að þýða svona ensk orðatiltæki yfir á íslensku).

Að lokum var slatti af plötum sem voru mikið lofaðar en mér fannst ekki mikið til koma. Arctic Monkeys platan er ofmetnasta plata ársins, frekar leiðinleg plata sem á nokkra góða spretti en hvers vegna hún er að fá svona mikið lof er mér hulin ráðgáta. Gnarls Barkley platan fannst mér einnig leiðinleg fyrir utan Crazy og er ég ekki að ná því lofi sem hún fékk. Band Of Horses platan fannst mér heldur ekkert spes. Danielson er allt í lagi en ekkert meira, Islands eru ágætir en ekkert meira. Nýja Mars Volta platan var meira af því sama, vonandi halda þeir ekki áfram að hjakka í sama farinu annars missi ég allan áhuga. Muse eru farnir að vera soldið þreyttir. Ég hef ekki fílað rapp eða hip hop almennilega síðan 1996 eða svo, þ.e.a.s. það rapp og hip hop sem hefur komið út síðan þá, og því gerði ég lítið í því að kynna mér ýmsar rapp og hip hop plötur sem komu út á árinu. Ég ætla samt að reyna að bæta úr þessu en það er eflaust langt í það að ég fari að hlusta á nýlegt rapp af einhverju viti, sorry en þetta hljómar allt eins í mínum eyrum! Ætli ég hafi það ekki sem eitt af áramótaheitum mínum að kynna mér rapp og hip hop betur.

Ég hlustaði allt of lítið á Íslenska tónlist á árinu. Keypti mér plöturnar Dod Qoq Pop með Bob og Hvar í Hvergilandi með Ókind og voru þær báðar nokkuð góðar. Besta íslenska platan sem ég heyrði var samt Kiss Your Chora með Ask The Slave en hún var þó ekki gefin út á árinu og er þess vegna ekki á listanum en verður pottþétt á 2007 listanum þar sem hún mun koma út einhverntíma á næstu vikum. Sú staðreynd að ég þekki meðlimi allra þessarra þriggja hljómsveita og tel suma þeirra vera ágætis vini mína gæti haft eitthvað að gera með álit mitt á þessum plötum en ég vil samt halda því fram að það sé ekki mikill þáttur í því. Aðrar íslenskar plötur hlustaði ég lítið, m.a. því að ég keypti engar fleiri og það er erfiðarar að nálgast íslenskar plötur á netinu en erlendar. Mér tókst þó að finna nýju Reykjavík! plötuna á torrent.is um daginn en hef ekki enn hlustað á hana, hún er örugglega góð. Ég hreinlega skammast mín fyrir að hafa kynnt mér íslenska tónlist svona lítið á árinu og ætla að reyna að bæta úr því hið snarasta.

Þar hafiði það, 2006 var ekki nógu gott tónlistarár hvað varðar tónlist sem kom út á árinu. Ég sá aftur á móti fullt af góðum tónleikum enda fór ég á Hróarskeldu, Reykjavík Trópík, Innipúkann og Airwaves og mun líklega fara á allt þetta aftur í ár. Getur samt verið að ég fari á eitthvað annað en Hróa núna, t.d. Pukkelpop, Glastonbury, Pitchfork Music Festival eða eitthvað álíka. Fer eftir line-upi og hvað annað fólk vill gera. En mig langar rosalega mikið að sjá Radiohead live á árinu.

Þeir 2006 tónleikar sem stóðu hvað helst upp úr voru Belle and Sebastian á Borgarfirði Eystri(og öll sú ferð reyndar var yndisleg, ég væri mjög til í að fara aftur þangað á tónleika), Jens Lenkman og Patrick Watson á Airwaves(þeir tveir tónleikar samanlagðir eru með betri tónleikaupplifunum minnar stuttu ævi), Roger Waters á Hróa og Supergrass á Reykjavík Trópík(hljómsveit sem ég hef dýrkað í rúman áratug þannig að það var vitaskuld algjör draumur að sjá þá loksins). Ég skemmti mér einnig vel yfir Badly Drawn Boy í Höllinni, Animal Collective, The Strokes, Scissor Sisters og Tool á Hróa, Baggalút á Innipúkanum(annars var Innipúkinn frekar slappur) og Wolf Parade á Airwaves. Gott tónleikaár í heildina séð.

Television voru síðan vonbrigði ársins, Marquee Moon er ein besta plata sem gerð hefur verið en Television sem ég sá á Innipúkanum voru þreyttir gamlir karlar sem voru engan veginn að nenna því að spila þarna. Þeir myndu sóma sér vel sem húsverðir í Þjóðminjasafninu.

Ég hlustaði einnig á fullt af góðum gömlum plötum í ár. Deerhoof varð t.d. nýja uppáhaldsbandið mitt(og langar mig líka rosalega mikið að sjá þau live í ár), ég hefði lítið hlustað á þá áður og var ekki viss hvað mér fannst um þau en svo fór ég að hlusta betur og varð ástfanginn af hinni yndislega súru tónlist þeirra sem ég kýs að kalla leikskóla-sýru-pönk-popp. Með öðrum orðum: Það er ómögulegt að skilgreina Deerhoof. Þetta er bara yndislegt band. Milk Man með Deerhoof er ein besta plata sem ég hef heyrt. Einnig hækkaði Frank Zappa um nokkur sæti á lista mínum yfir bestu tónlistarmenn allra tíma, Belle and Sebastian fór úr því að vera í ca. 30. sæti yfir bestu bönd allra tíma yfir í ca. 10. sæti og ég hlustaði á góðar plötur með böndum á borð við XTC, Gang Of Four, Camel, The Cars, The Gun Club og ýmsu fleira.

Svo er Lily Allen hot gella, hver segir að breskt kvenfólk sé ljótt? CSS stelpurnar eru líka með mjög sexí raddir.

Segjum þetta gott með tónlist frá 2006. Núna ætla ég að snúa mér að kvikmyndum.

Kvikmyndaárið 2006 var líkt og tónlistarárið 2006 ekki alveg að gera sig fullkomnlega. Margar góðar myndir en ekki eitt einasta meistaraverk. En þá er ég að tala um þær myndir sem komu út árið 2006 á Íslandi, kannski mun ég á næstu mánuðum sjá einhverja snilld sem kom út í USA árið 2006. Ég hef t.d. heyrt góða hluti um nýjustu mynd David Lynch, Inland Empire. En nóg um það, hérna er listi yfir 10 bestu myndirnar að mínu mati sem voru gefnar út á Íslandi árið 2006.

The Departed
The Squid And The Whale
Children Of Men
Dave Chappelle´s Block Party
Caché (Hidden)
The Inside Man
The Matador

Mysterious Skin
The Beat That My Heart Skipped
Borat: Cultural Learnings of America for Make Benefit Glorious Nation of Kazakhstan

Aðrar góðar: Brokeback Mountain, The New World, Good Night and Good Luck., A Scanner Darkly, Citadel, A Prairie Home Companion, Hustle and Flow, Match Point, Friends With Money, Half Nelson, Casino Royale, Börn, Shortbus, Thank You For Smoking, Mission: Impossible 3, Munich, Factotum, Clerks 2, Jackass Number Two.

Þetta eru allt mjög góðar myndir og ég mæli með þeim öllum, ef þið viljið vita nánar hvað mér fannst um þær þá bara spyrjið.

Óvæntasta mynd ársins var hiklaust Lady In The Water, hún er ekki alveg nógu góð til að komast inn á listann, aðallega út af slöppum endi, en hún er engu að síður mjög athyglisverð og eflaust ein skrítnasta og frumlegasta Hollywood mynd sem ég hef séð lengi. M. Night Shyamalan hefur gert misgóðar myndir og þær eru allar meingallaðar en hann má eiga það að hann hefur sinn persónulega stíl og er gera eitthvað allt annað en flestir aðrir leikstjórar í Hollywood. Svo er alltaf geðveik myndataka í myndunum hans. Lady In The Water er líka helvíti fyndin og væri næstum því hægt að kalla hana grínmynd. Hún gæti farið inn á listann ef ég sé hana aftur. Miami Vice er önnur athyglisverð mynd sem virkar betri í minningunni og gæti komist inn á listann eftir að ég sé hana aftur. Mest artí Hollywood hasarmynd sem ég hef séð, ef hægt er að kalla hana hasarmynd. Michael Mann er snillingur.

Ég hef sem betur fer vit á því að forðast flestar myndir sem ég tel að ég muni ekki fíla og því sá ég ekki mjög margar slæmar myndir. Ég fékk afsláttarmiða á Ultraviolet og skellti mér á hana upp á djókið ásamt félaga mínum en þegar kom að hlénu íhuguðum við alvarlega að ganga út og vinur minn notar þessa mynd núna sem viðmið þegar hann talar um verstu myndir sem hann hefur séð: "Hversu slæm er þessi mynd?" "Ultraviolet slæm!" "Damn!" Ice Age 2 sökkaði líka feitt og ég er orðinn ansi þreyttur á þessum teiknimyndum um talandi dýr sem eru að reyna troða væmnum boðskap á mann. Því miður var Ice Age 2 ein af vinsælustu myndum ársins, hvað er að fólki? Þessi mynd er álíka fyndin og heimsókn á Krabbameinsdeild Landspítalans.

The Proposition, skrifuð af Nick Cave, var eflaust vonbrigði ársins. Mynd skrifuð af Nick Cave og með tónlist eftir hann og auk þess full af toppleikurum gæti ekki verið slæm. En því miður reyndist hún vera afskaplega tilgerðarleg og leiðinleg og ég var eiginlega ekkert að fatta hvað hann var að meina með þessarri mynd. Ég verð reyndar að viðurkenna að ég var þreyttur þegar ég sá hana, það hafði kannski eitthvað að segja. Ég sá hana líka í Hróarskeldubíóinu, get ekki sagt að ég mæli með því að sjá mynd þar.

Segjum þetta gott. Ég held ég hendi upp Árið í Ljósmyndum færslu næst.

Bless og takk og reykið krakk!

Tuesday, January 02, 2007

A Year In A Life

Núna er árið 2007 byrjað og því er best að líta yfir farinn veg og sjá hvað stóð upp úr á árinu 2006. Sér færslur munu birtast um tónlist og kvikmyndir á árinu á næstu dögum en margt skemmtilegt gerðist á þessu ári í öðrum málefnum. Hér koma nokkur af þeim:

Pólítískur skandall ársins: Árni Johnsen aftur á þing. Voddafokk?

Klám ársins: Hið óséða kynlífsmyndband með Britney og K-Fed.

Flipp í Útlöndum: Að gera dyraat á Strikinu í Köben.

Setning ársins: "Einn kaldan og einn heitan til að skola honum niður...eða öfugt" -manekkihver

Klaufaskapur ársins: Þegar ég var að skera sítrónu og tókst að skera mig í puttann þannig að það var næstum liðið yfir mig. Voddafokk?

Orð ársins: Voddafokk?

Dans ársins: Bjórstrippið í frumsýningarpartíinu fyrir Þú ert enginn Johnny Depp.

Bloggfærsla ársins: Sunnudagsmorgunn AKA Heiðar segir upp, eftir Krizza Lindberg. (Neðarlega á síðunni)

Rönneröpp: Fíaskó, eftir Smára Gunnarsson

3. sæti: Hinir litlu persónulegu sigrar, eftir Orra Tómasson

4. sæti: Áramótabloggið, eftir Steingrím Karl Teague (Reyndar eiga allar færslur eftir þennan mann verðlaun skilið. Ég útnefni hann bloggara ársins.)

5. sæti: Allar myndafærslurnar hennar Júlíu Hermannsdóttur (Ég get ekki valið á milli þeirra)

Bloggkommentari ársins: Kristinn, mest hvetjandi kommentari allra tíma. Dæmi: "Takk Atli, fyrir að stela þessu frá þessum sem stal frá þessari sem stal þessu af mæspeis. Megi líf þitt verða steikt á teini."

Besta leikrit: Lebanon is a good place for rebirth, eftir Friðgeir Einarsson og Karl Ágúst Þorbergsson.

Rönneröpp: Íslensk fyndni LOL Djók, eftir Árna Kristjánsson


Jæja, ég held þetta sé gott í bili. Ég mun síðan gera árinu frekari skil með sérstakri ljósmyndafærslu auk áðurnefndum færslum um kvikmyndir og tónlist og eflaust einhverju fleira ef ég man eftir því.

Bless og takk og ekkert snakk!

Monday, January 01, 2007

Svona viljum við hafa það

Mér fannst Skaupið fínt, með betri skaupum sem ég hef séð og hiklaust það flottasta. Hvað fannst ykkur?


Þetta er líka nett.

Sunday, December 31, 2006

Have a joyous Kwanzaa

Fyrst Turkmenbashi, svo James Brown og núna Saddam Hussein! Hvað er að gerast? Heimsendir í nánd?

Svo var Saddam hengdur! Ég hélt að því hefði verið hætt fyrir mörgum áratugum en það er greinilegt að villimennska ríkir ennþá í Bandaríkjunum. Ég held líka að lífláta Saddam hafi bara gert illt verra. Ef ástandið núna er eins og opið sár þá má líta á sem Bandaríkin hafi stungið hníf í þetta opna sár og snúið honum í hring og að því loknu stráð salti í sárið og síðan hellt smá sítrónusafa yfir.

(Edit) Af einhverri ástæða hélt ég að Saddam hafði verið hengdur í Bandaríkjunum en svo var víst ekki heldur var hann hengdur í Írak af Írökum. Þetta horfir þá kannski svolítið öðruvísi við. Ég fór á stúfana og sá m.a. þetta kvót frá GWB: "Bringing Saddam Hussein to justice will not end the violence in Iraq, but it is an important milestone on Iraq's course to becoming a democracy that can govern, sustain, and defend itself." Aha, mhm....ég veit nú ekki alveg með það. Maðurinn er búinn að vera í fangelsi í 3 ár...gerir dauði hans málin eitthvað betri? Munu núna ekki fullt af stuðningsmönnum hans valda meiri usla en áður? Ég veit samt ekki hvernig málin standa með dauðarefsingar í Írak, líkast til eru hengingar daglegt brauð þar. Annars veit ég ekkert hvað ég er að segja, við sjáum hvernig málin þróast þarna á næstu misserum.

...

Nýverið var frumsýnd hryllingsmynd í Bandaríkjunum sem nefnist Black Christmas og endurgerð af samnefndri mynd frá 1974, en ég var að spá hvort nýja myndin gæti tengst þessu eitthvað.


Já og gleðilegt nýtt ár öllsömul!