Wednesday, May 28, 2008

Í geimnum heyrir enginn öskur yðar

Ég hef einhverja skrítna þörf til að blogga en ég veit bara ekki alveg um hvað...


Ætli ég tali ekki bara um Alien kvadrilógíuna. Fyrir fjórum árum eða svo festi ég kaup á "Alien Quadrilogy", pakka sem inniheldur allar fjórar Alien myndirnar + aukadisk fyrir hverja mynd + einn aukadisk í viðbót með efni sem á við allar myndirnar. Semsagt 9 diskar í einum pakka! Auk myndanna er í þessum pakka að finna special editions um hverja mynd fyrir sig, commentary yfir hverri mynd og margar stuttar heimildarmyndir sem lýsa öllu sem varðar gerð hverrar myndir: Hvernig handritin urðu til, hvernig sviðsmyndirnar voru hugsaðar, hvernig tökurnar gengur fyrir sig, hvernig viðtökurnar urðu og ég veit ekki hvað og hvað. Af einhverri ástæðu, kannski bara af því að þetta er svo mikið af efni, hafði ég ekki lagt í það að sökkva mér í þetta fyrr en nú. Ég kláraði skólann þann 8. maí en mun ekki byrja að vinna fyrr en 2. júní. Þar af leiðandi hef ég haft mikinn frítíma og hef því notað eitthvað af honum í að skoða þennan pakka. Ég er langt frá því búinn að fara í gegnum allt efnið en ég hef lært margt skemmtilegt af þessu. Eins og t.d. eftirfarandi staðreyndir:

Vinnuheitið á Alien var Star Beast.

Ripley átti upprunalega að vera karlmaður.

Hugmyndin að Alien kviknaði út frá hinu afar flippuðu mynd Dark Star, frumraun John Carpenter sem leikstjóra, þar sem geimveran var baðbolti! Handritshöfundurinn Dan O´Bannon vildi skrifa svipaða mynd sem væri hrollvekja en ekki gamanmynd.

Útlitið á geimverunni var ekki hannað sérstaklega fyrir myndina heldur unnið út frá teikningum sem H.R. Giger hafði gert fyrir bók sína Necronom IV. Eitthvað af því sem var notað í myndinni var unnið út frá efni sem var búið til fyrir mynd sem átti að gera eftir skáldsögunni Dune (Sem David Lynch gerði síðan mynd eftir) O´Bannon og Giger unnu báðir við þessa mynd og Alejandro Jodorowsky ætlaði að leikstýra henni. Pink Floyd átti að sjá um tónlistina Orson Welles og Salvador Dalí voru líka orðaðir við hana en það varð síðan ekkert úr henni. Aðallega út af því að kostnaðurinn hefði verið gígantískur. En mikið hefði það nú verið frábært ef sú mynd hefði orðið að veruleika.

Já gott fólk, það getur verið mjög fræðandi og skemmtilegt að skoða aukaefni á dvd diskum. Ég mæli eindregið með því.

Ég ætla að enda þetta blogg með að því sýna okkur nokkrar teikningar sem voru gerðar fyrir myndina og einnig nokkur skot úr myndinni sjálfri.