Núna ætla að ég að skrifa um kvikmyndahátíðina sem er að ljúka þessa dagana. Ég ætla að reyna að hafa þetta ekki einhverja fokkings ritgerð en þetta mun samt örugglega vera svolítið langt.
Í fyrsta lagi finnst mér asnalegt að þetta heitir októberfest þar sem meirihluti hátíðarinnar fór fram í nóvember eins og ég hef áður sagt. Hin hátíðin frá sömu aðilum hét Iceland Film Festival, var ekki bara hægt að kalla þetta Mini-Iceland Film Festival eða Iceland Film Festival 2 ?
Í öðru lagi var brjálað að gera hjá mér þannig að ég náði "bara" að sjá 7 myndir en ekki 20 eins og ég hefði viljað. Myndirnar sem ég sá voru þessar:
My Summer Of Love er mynd um 2 stelpur, ein dökkhærð og villt og hin ljóshærð og ekki eins villt. Þær kynnast, verða bestu vinkonur, gera alls kyns sniðuga hluti saman og stunda mök. Svona eins og vinkonur eiga til að gera. Þetta er eitthvað sem maður hefur séð oft áður og betur gert. Alls ekki slæm mynd samt, mjög flott tekin og vel leikin með fínni tónlist. En myndin hefur bara ekkert nýtt fram að færa og er í raun ekkert sérlega merkileg. Lokakaflinn er samt soldið magnaður og nær að lyfta myndinni upp á aðeins hærra plan. 57 af 100.
Me And You And Everyone We Know er ég búinn að fjalla um og umfjöllun um hana er að finna í næstsíðustu færslu. Frábær mynd btw og fær 79 af 100.
The March Of The Penguins. Það eru tvö mjög slæm vandamál við þessa mynd. Í fyrsta lagi er gerð tilraun til að ljá mörgæsunum persónulega og mannlega eiginleika. Við heyrum tal yfir myndinni þar sem leikarar eru að leika hugsanir mörgæsanna. Þetta fannst mér ákaflega illa gert og hreint út sagt kjánalegt og mér fannst ég vera horfa á lélega barnaþátt á köflum. Fyrir utan að margt að því sem þau sögðu var virkilega tilgerðalegt og hallærislegt "ljóðrænt" rugl. Það hefði kannski verið hægt að gera þetta vel en svo var ekki í þessarri mynd. Í öðru lagi er tónlistin alveg hrikalega í þessarri mynd og gerði myndina en meira eins og hún væri lélegur barnaþáttur í morgunsjónvarpi barnanna. Svo finnst mér svona myndir eiginlega ekki eiga heima í bíó, þetta er eitthvað sem á að vera á discovery channel. Ég hef alveg gaman að mörgæsum og það var gaman að fylgjast með ævintýrum þeirra en þetta var bara ekki gert nógu "cinematískt". Það komu góðir kaflar í myndinni, eins og t.d mörgæsaorgían, en í heildina fannst mér þetta ekki sérlega skemmtileg mynd. Ég gef henni 45 þó hún eigi í raun skilið minna en mörgæsir eru æðislegar og því fær myndin bónusstig fyrir þær. Þær eiga samt skilið mun betri mynd.
Murderball. Ég hef svosem ekkert mikið um þesa mynd að segja. Þetta er bara mjög áhugaverð og skemmtileg innsýn inn í líf nokkur svokallaðra "paraplegics," sem útleggst víst á íslensku sem þverlamaður, sem spila svokallað hjólastólarugby. Frekar brútal sport. Áhersla myndarinnar er samt í raun mun meira á mennina sjálfa frekar en íþróttina þrátt fyrir titilinn og það er allt gott og blessað. Mér finnst það frekar magnað hvað þessum mönnum tekst að fúnkera vel í daglegu lífi miðað við fötlun sína. Þeira geta keyrt bíla og í raun gert flest sem ófatlað fólk gerir. Þeir eiga meira segja í engum erfiðleikum með að hözzla og stunda villt kynlíf. Hjólastólarugby virðist annars vera nokkuð skemmtileg íþrótt áhorfs ef dæma má af myndinni. Ég er ekki mikill íþróttamaður en það er eitthvað við það að horfa á þverlamaða menn í hjólastól lúskra á hver öðrum og berjast um að koma boltanum í mark. Myndin fær 67 af 100 hjá mér.
Hostel. Þessi mynd er eiginlega algjört rusl. Hún er illa leikin, heimskuleg, fyrirsjáanleg og mjög greinilegt að hún var skrifuð á aðeins 3 vikum. En þetta er engu að síður skemmtilegt drasl. Hún er hröð, fyndin og skemmtilega ógeðsleg. Það sem heldur myndinni uppi er að það er varla dauður punktur í henni og að hún tekur sig ekki of alvarlega. Eyþór Guðjónsen er ekki mikill leikari en hann er mjög fyndinn og reddar fyrri helming myndarinnar alveg með því að vera ógeðslega hress og steiktur. Seinni helmingur myndarinnar er síðan hrollvekja í svipuðum dúr og Saw. Fullt af alls kyns pyntingum og ógeði. Mjög skemmtilegt allt saman. 48 af 100.
Dig!. Mjög áhugaverð innsýn inn í feril tveggja rokkhljómsveita: The Dandy Warhols og The Brian Jonestown Massacre. Báðar hljómsveitir mjög góðar en aðeins önnur meikar það almennilega á meðan hin nær því ekki að vera meira en öndergránd költ þótt hún gæti alveg verið meira. Því miður er myndin fulllöng og frekar langdregin. Hún hefði verið mjög fín ef hún hefði verið svona 20 mín styttri. 57 af 100.
The Child. Áhrifamikil og vel gerð mynd um par sem hefur orðið illa úti í lífinu og er nýbúið að eignast barn. Faðirinn er maður sem lifir algerlega í núinu. Hann nennir ekki að vinna og stundar því þjófnað og selur síðan þýfið til að lifa en eyðir síðan oftast peningunum jafnóðum í gagnslaust drasl. Ég ætla ekki að segja meira um söguþráðinn en myndin sýnir hvað fólk getur gengið langt í örvæntingu sinni þegar það skortir peninga. 73 af 100.
Meira sá ég ekki á hátíðinni.
Plötur:
Björk - Post, Homogenic
Manic Street Preachers - Forever Delayed
My Morning Jacket - Z(82)
The Flaming Lips - Hit To Death In The Future Head
Franz Ferdinand - You Could Have It So Much Better(79)