Saturday, September 10, 2005

Lélegt Sjónvarpsefni

Áðan horfði ég á annan þáttinn af Stelpurnar, nýja íslenski sketsaþáttiurinn sem er sá fyrsti af sínu tagi(að ég held) þar sem flestir aðalleikararnir eru kvenkyns. Ég var að vonast eftir að þarna væri á ferðinni ágætis þáttur, kannski ekki í sama gæðaflokki og Fóstbræður en þó að minnsta kosti álíka góður og Svínasúpan. Íslenskt grín hefur verið frekar slappt gegnum tíðina að mínu mati, ef undan er skilið flest sem Tvíhöfði og Radíusbræður hafa gert, og hefði verið mjög gaman að sjá loksins hóp af almennilegum kvengrínistum en það hefur verið frekar lítið af þeim á klakanum.

Því miður reyndist Stelpurnar vera vægast sagt ömurlegur þáttur. Hann var ekki vitund fyndinn. Fullt af hugmyndum sem hefðu getað orðið að góðum sketsum en stelpurnar virðast ekki hafa hundsvit hvernig á að gera góðan skets og halda að góð hugmynd ein dugi. Það vantaði oftast punchlineið í sketsana og þeir voru flestir frekar stuttir og húmorinn á algjöru leikskólastigi. Sumir af þessum bröndurum hefðu kannski getað virkað í réttum höndum en þeim tókst að klúðra þessu öllu. Stelpurnar léku flestar alveg hrikalega og þá fór Ilmur Kristjánsdóttir hvað mest í taugarnar á mér með sínum fáránlegu töktum og hryllilega ofleik. Það var nákvæmlega ekkert ferskt eða sniðugt í þessum þætti og ég held bara að hann toppi Spaugstofuna í ömurlegheitum. Það skemmtilegasta í þessum þætti var þegar kunningja mínum Freysteini Oddsyni brá fyrir í einum sketsi sem elskuhuga sér mun eldri konu. Einnig sást Kapteinn Katrín í einum skets. Hvorugt þeirra sagði orð en þau voru samt mun betri en restin af þættinum.

Ég horfði síðan á Það Var Lagið sem er í raun ekki mikið betri þáttur en á það þó til að vera skemmtilega hallærislegur. Ég held samt að ég mun aldrei skilja hvers vegna Hemmi Gunn er svona elskaður af þjóðinni. Fyrir utan hvað hann er hallærislegur og einstaklega allt of hress þá er sviðsframkoma hans ekki upp á marga fiska þar sem hann á oft í erfðileikum með að prumpa út úr sér orðum og lítið vit er í flestu sem hann segir. Raggi Bjarna var einn af gestunum í þessum þætti og þar er annar maður hvers vinsældir ég skil illa. Hann virkar á mig sem frekar creepy* týpa auk þess sem hann talar alltaf eins hann sé fullur og virðist auk þess vera algjörlega út úr heiminum.

Segjum þetta gott í bili.


*Það vantar almennilega íslenska þýðingu á þessu orði, ógnvekjandi segir orðabókin en mér finnst það ekki passa í þessu samhengi

Lögin:

David Byrne - Glass, Concrete and Stone
Fun Lovin Criminals - Loco
Buff - Glerbrot

Plöturnar:

The Mars Volta - Frances The Mute(75)
The Doors - The Doors
Clap Your Hands Say Yeah - Clap Your Hands Say Yeah(89)
Yes - Yes, Time And A Word, The Yes Album
The New Pornographers - Mass Romantic, Electric Version, Twin Cinema
Pavement - Slanted And Enchanted
Sonic Youth - Murray Street

Monday, September 05, 2005

Styrjöld í stjörnunum og austurrískur keisari sem var skotinn

Ég átti næs helgi. Hún byrjaði með Franz Ferdinand og endaði með Star Wars.

Franz tónleikarnir voru hin fínasta skemmtan en ég vil ekki ganga svo langt að segja að þetta hafi verið með bestu tónleikum sem ég hef farið á. Í fyrsta lagi var ég umkringdur fólki sem var hærra en ég og fólk átti það til að rekast mikið í mig þannig að bæði sá ég lítið á sviðið og varð hafa mig allan við í að verða ekki fyrir meiðslum. Í öðru lagi var fáránlega heitt þarna inni. En burtséð frá því þá spiluðu Ferdinandmenn mjög vel og fannst mér mjög gaman að þeir spiluðu slatta af nýju plötunni. Lögin voru reyndar misjöfn að gæðum en hljómuðu flest nokkuð vel, eflaust þarf að hlusta á sum þeirra nokkrum sinnum til að komast inn í þau, og býð ég spenntur eftir að heyra plötuna. En þótt að vel hafi verið spilað og gaman hafi verið að tónlistinni og gaurarnir hafi verið ansi hressir þá fannst mér eitthvað vanta. Til dæmis hefðu þeir mátt leika sér meira með lögin. Þeir spiluðu flest lögin nokkurn veginn eins og þau voru á plötunni og stundum hefði ég alveg getað verið með diskinn í gangi. Mér finnst að hljómsveitir megi gera mikið af því að leika með lögin og hafa þau lengri og svona á tónleikum og einnig er alltaf gaman þegar lög eru coveruð á tónleikum. Í heildina var ég samt sáttur og þetta voru góðir tónleikar.

Restin af helginni fór síðan í partístand og fleira hresst.

Ég endaði síðan helgina á því að horfa á fyrstu Star Wars myndina sem ég hafði ekki séð í heild sinni í nokkur ár. Ég var einhvern veginn að búast við því að hún myndi ekki vera eins góð og mér fannst hún þegar ég var lítill en sem betur fer reyndist svo ekki vera. Myndin er alls ekki fullkominn. Hún er oft mjög heimskuleg og hallærisleg en þrátt fyrir það svínvirkar hún og er að mínu mati ein skemmtilegasta mynd sem gerð hefur verið. Hún er í raun skólabókardæmi um hvernig á að gera virkilega góða afþreyingu. Það sem gerir hana svona góða er að það er alltaf eitthvað að gerast. Það eru engir dauðir punktar, hún er aldrei langdregin og manni leiðist ekki í eina sekúndu. Svona eiga blockbusterar að vera. Þeir mega alveg vera heimskulegir og kjánalegir(bara ekki of) svo lengi sem þeir láta mann ekki spá í það hvað þeir eru heimskulegir og kjánalegir. En þótt hún sé hröð þá er hún ekki of hröð eins og margar hasarmyndir nú til dags eiga það til að vera. Hún gefur sér tíma til að kynna persónurnar og lætur hlutina gerast eðlilega en það er samt alltaf eitthvað til að halda athyglinni: góður brandari hér, flott tæknibrella þar og svo framvegis. Svo er engin MTV klipping þannig að maður skilur alltaf hvað er að gerast. Myndin er líka bara svo klassísk eitthvað og hefur einhvern barnalega sjarma við sig. Mark Hamill er frekar slappur leikari en virkar samt ágætlega í þessu hlutverki, aðallega út af útlitinu. Hinir leikararnir eru aftur á móti allir frábærir. Harrison Ford, Carrie Fisher, Alec Guinness og allir hinir standa sig með prýði. Annað sem glæðir myndina miklu lífi er tónlistin og sést(eða heyrist) í þessarri mynd hvað skiptir miklu máli að hafa góða tónlist í mynd. En í stuttu máli þá er þessi mynd bara óendanlega svöl. Annars tók ég eftir einu mjög skemmtilegu núna. Síðan ég sá myndina síðast lærði ég að hlutverk Han Solo sem Harrison Ford leikur var upprunalega skrifað fyrir svartan mann og sjást leifarnar að því í myndinni á því að Solo kallar Leiu prinsessu alltaf "sister" sem er eitthvað sem blökkumenn eru gjarnir að gera. Gaman að því. Annars fær Star Wars 90 af 100 hjá mér. Ætli ég horfi ekki á The Empire Strikes Back í kvöld.



Ég sá líka aðra góða mynd um helgina en hún nefnist Land Of The Dead. Sú mynd er greinilega alls ekki fyrir alla þar sem ég hef heyrt fólk kalla hana ömurlega en ég held bara að það fatti hana ekki allir. Týpísk, illa leikin og asnaleg hefur hún verið kölluð en ég er bara alls ekki sammála því. Kannski skiptir máli að hafa séð hinar þrjár myndirnar í zombie seríunni hans George A. Romero. Allaveganna þá sá ég mjög djúpa og beitta ádeilu í þessari mynd á íraksstríðið/George W. Bush/9-11 og jafnvel ísrael-palestínu deiluna í þessarri mynd. Ég nenni ekki að fara mjög ýtarlega út í það en myndin er full af hlutum sem má túlka á mjög skemmtilegan hátt. Til dæmis er gerð áætlun til að ráðast á stóran turn og heyrast setningar eins og "We don´t negotiate with terrorists"(kannski ekki bestu dæmin en ég man ekki eftir neinu betra í augnablikinu). Annars er ádeilan í myndinni bara rjómi á kökuna þar sem það er margt annað skemmtilegt í henni. Mér fannst hún nokkuð spennandi og brá nokkrum sinnum, svo er mjög skemmtilegur húmor í henni og fullt af skemmtilegum one-linerum og flottum línum. Svo er líka mjög flott myndataka og klipping í myndinni og mikið af flottum skotum. Í heildina fannst mér þetta bara mjög töff mynd og alls ekki týpísk og leikurinn var fínn. Eflaust munu fáir vera sammála mér(nema flestir gagnrýnendur). Land Of The Dead fær 72 af 100 hjá mér.

Takk og bless.

Lögin:

The Cars - Drive
Prince - Purple Rain, Darling Nikki
Franz Ferdinand - Do You Want To?

Plöturnar:

Sonic Youth - Confusion Is Sex
Prince - Purple Rain
Buzzcocks - A Different Kind Of Tension
Sigur Rós - Ágætis Byrjun(89)
Franz Ferdinand - Franz Ferdinand(95)
Happy Mondays - Pills ´N´ Thrills and Bellyaches
Art Brut - Bang Bang Rock And Roll