Jæja, hvar á maður að byrja. Núna er afstaðin svokölluð hvítasunnuhelgi sem er haldin til að minnast einhvers sem Jesú gerði, þegar hann hitti postulana aftur eða e-ð álíka(ég hef aldrei verið mjög trúaður þannig að vinsamlegat afsakið fáfræði mína). Þessi helgi stóð yfir í 3 daga eða fram á mánudag og gerði ég margt skrítið og skemmtilegt. Helgin hófst með hressandi leikfélagspartýi á föstudagskvöldinu heima hjá henni Birnu Þrastar. Þar hitti ég slatta af fólki sem ég hafði ekki séð í amk nokkrar vikur og var farið í leiki og dansað og rólað, já þið lásuð rétt, ég rólaði og hún Tinna Daníels tók meiraðsegja mynd af því á símann sinn. Síðan tók maður þátt í ýmsum umræðum um marga skemmtilega hluti og ýmis leyndarmál litu dagsins ljós í leiknum "ég hef aldrei" og ég og Antoine Fons og fleira hresst fólk dönsuðum æðislega súran nútímadans við tóna hins einkar skemmtilega lags "Wuthering Heights" með Kate nokkurri Bush(hvað varð annars um hana ?) og var það hiklaust einn af hápunktum kvöldsins. Síðan á laugardaginn fór ég tvisvar í bíó (já ég er sjúkur). Fyrst fór ég á nýjasta ópus hans Woody Allen sem nefnist "Anything Else" ( eða "Allt Annað" á okkar ástkæra ylhýra) og var sú mynd hin ágætasta skemmtun og full af skemmtilegum pælingum þótt vissulega geti hún talist ein af síðri myndum rauðhærða gyðingsins ógurlega. Maðurinn er farinn að eldast og ekki eins sprækur og hann var áður en það er samt smá neisti í honum og þótt að þetta hafi verið mjög dæmigerð Allen mynd og engin snilld þá var margt sniðugt í henni. Helsti gallinn var kannski sá að ráða Jason Biggs í aðalhlutverkið. Ég verð bara að segja eins og er að hann er bara frekar slappur leikari, hann er bara alltaf eins! Þetta virkaði ágætlega í American Pie en núna er þetta bara þreytt og maðurinn er bara alls ekkert góður leikari. Síðan sá ég "The Day After Tomorrow" ("Hinn Daginn" á okkar ástkæra ylhýra) og var sú mynd bara ansi hreint skemmtileg. Þetta var náttla mjög týpísk stórslysamynd og frekar hallærisleg og allt það en það var samt helvíti gaman að henni. Það er eitthvað við þessar stórslysamyndir sem höfðar alveg rosalega til mín. Ég held að það sé aðallega öll þessi eyðilegging. Myndin var samt líka mjög fyndin og voru nokkur skemmtileg skot á ríkisstjórn Bandaríkjanna í henni auk þess sem í aðalhlutverkum voru snilldarleikarar á borð við Dennis Quaid og Ian Holm. Í stuttu máli var þarna á ferðinni topp sumarafþreying og ég mæli eindregið með henni fyrir fólk sem á annað borð er gefið fyrir myndir af þessu tagi. Hann Hilmar kallinn fór með mér á seinni myndina á meðan ég fór einn á þá fyrri og eftir myndina kíktum við heim til hans og lékum okkur aðeins á gítar og síðan kíkti ég í bæinn aðeins, aðallega til að hitta Sunnevu vinkonu mína sem er nýkomin heim frá ársdvöl í Hong Kong þar sem hún dvaldi við nám. Einnig hitti ég slatta af fleira skemmtilegu fólki og flippaði eitthvað, saug lakkrísblóm og fékk mér pizzu á devitos og fleira slíkt. Ég var kominn heim klukkan að nálgast fimm og lagðist til rekkju stuttu seinna. Sunnudagurinn fór síðan í það að hanga með Marteini vini mínum þar sem við m.a horfðum á stuttmyndir sem við gerðum í 7. bekk. (7. bekkur, those were the days...) Ég trompaði þetta allt saman á mánudeginum með því að skella mér á Korn tónleika með félaga mínum Einar Val og skemmti ég mér ágætlega á þeim tónleikum þótt ekki geti ég talist neinn rosa Korn fan, fíla þá aðallega gamla stöffið þeirra. En þeir kunna að skemmta fólki, það eitt er víst. Jæja, núna er ég búinn að fara ansi hratt yfir sögu til að lýsa þessari löngu helgi eins og ég upplifði og verð ég að segja að ég er alveg ágætlega sáttur með hana. Eitt sem ég fór að velta fyrir mér um helgina var það hvort ég ætti að fara í HÍ að læra heimspeki eða bókmenntafræði eða bara fara beint í kvikmyndaskóla og einbeita mér alfarið að því. Spurning hvort maður nenni að vera e-r 6 til 8 ár í viðbót í skóla auk þess sem ég veit ekki hversu mikið ég græði á því að fara í þetta nám og hvort þetta verði ekki bara til þess að verði ekkert úr kvikmyndadraumum mínum. Maður á víst að elta draumana sína og besta leiðin til að láta þá rætast er auðvitað að einbeita sér fullkomnlega að þeim og gera allt sem hægt er til að láta þá rætast. Engu að síður er ágætt að hafa e-a aðra menntun en ég hef ekki endalausan tíma og nám kostar líka peninga. Svo get ég lært helvíti mikið upp á eigin spýtur bara með því að lesa bækur og þannig. En þar sem ég er svo óviss með allt þetta held ég að ársfrí sé ekkert nema gott. Ég get einbeitt mér betur að því að ná vissum takmörkum og sinna áhugamálunum og hef nægan tíma til að hugsa um hlutina. Auk þess ætla ég að reyna að mennta mig e-ð í tónlist, fara í gítarskóla eða e-ð. Ég hlýt að átta mig hvað ég á að gera á endanum. En já, þetta er komið nóg í bili. Ég kveð að sinni. Over and out.