USA! USA! USA!
Ég fór á myndina The Road To Guantanamo í bíó áðan og þar var á ferðinni mjög athyglisverð og mikilvæg mynd sem ég hvet alla eindregið til að sjá. En hún er ekki umræðuefni þessa bloggs. Eftir myndina kommentaði vinur minn á það að honum fansnt skrítið að fangarnir tveir sem myndin fjallar um og mættu á sýninguna til að svara spurningum áhorfenda skyldu ekki sniðganga Bandarískar vörur eftir þessa lífsreynslu. Þeir töluðu um að hafa borðað McDonalds og annar þeirra var í GAP peysu. Margir sem ég þekki stunda það að sniðganga Bandarískar vörur því að þeir eru ekki hlynntir því sem Bandaríkjamenn eru að gera. Ég er sjálfur ekki hlynntur Bandaríkjastjórn og ég skil þetta viðhorf að vissu leyti en ég er ekki sammála því. Mér finnst það í raun hálf asnalegt að sniðganga allt Bandarísk því, tjah, er öll þjóðin að taka þátt í þessu stríði gegn hryðjuverkum? Ríkisstjórn Bandaríkjanna samanstendur að mínu mati af valdagráðugum fíflum og stór hluti þjóðarinnar er mjög fáfróður og vitlaus en ég efast um að allir Bandaríkjamenn séu svo slæmir auk þess sem margir af þessum fáfróðu vitleysingjum eru örugglega ágætir inn við beinið. Það er örugglega alveg jafn mikið af fíflum, miðað við blessaða höfðatöluna, á Íslandi t.d. Ef ekki fleiri. Það sama má eflaust segja um flest önnur lönd. Ég tel það ekki leysa nein vandamál að sniðganga Bandarískar vörur (nema kannski allir geri það en það er ekki að fara að gerast) og í raun er maður ekkert mikið skárri en Bandaríkjamenn sem bögga alla sem líta arabískir út bara af því að nokkrir (eða nokkrar þúsundir) Arabar eru að stunda hryðjuverk. Ok, kannski ekki alveg sanngjarn samanburður en þið skiljið hvað ég á við (vona ég). Ég er ekki sammála því sem Bandaríska ríkisstjórnin er að gera en ég veit líka að það stendur ekki öll þjóðin að baki því sem þeir eru að gera. Ég hef komið nokkrum sinnum til Bandaríkjanna og kynnst nokkrum könum og þetta er mest allt fínt fólk. Svo koma flestar uppáhalds kvikmyndirnar mínar þaðan og margar uppáhalds hljómsveitirnar mínar. Svo er ég nokkuð viss um að margt af þessu fólki sem sniðgengur Coca Cola og McDonalds gengur um í fötum frá Nike eða einhverju álíka fyrirtæki og notar tölvur frá Microsoft og Apple og neytir ýmis matar sem er framleiddur í Bandaríkjunum og þannig mætti halda lengi áfram. Það sem ég er að segja með þessari færslu er einfaldlega þetta: Ekki bögga heila þjóð fyrir það sem aðeins hluti hennar er að gera. Er ekki alveg eins hægt að sniðganga allt íslenskt því að íslenska ríkisstjórnin er að standa fyrir stórfelldum virkjanaframkvæmdum og studdi við bakið á innrásinni í Írak?
Aftur á móti finnst mér ekkert að því að sniðganga vörur ef maður er á móti framleiðslufyrirtækinu sjálfu. Það er bara verst hvað ég er háður kóki...kannski ég ætti að fara í meðferð?